Verð á nýjum stað þessi jól, ætla að prófa laufabrauðið á Blönduósi í þetta skiptið. Þar er verið að baka stóran skammt sérstaklega handa mér. Stefni svo á að vera í Reykjavík um áramótin svona til tilbreytingar.
Var að rekast á áhugaverða grein á dn.se um danskan 15 ára strák sem sendur var af Politiken umhverfis jörðina árið 1928. Það er hálfopinbert leyndarmál að þessi strákur er fyrirmyndin að Tinna því það er vitað að Hergé átti og las bókina sem skrifuð var um ferðalagið.
Var að lesa hreint út sagt skelfilega frétt á Vísi rétt í þessu. Á yfirborðinu lítur þetta út fyrir að vera hið besta mál, loksins á að gera eitthvað í þessum lestrarvandamálum. Þegar maður les greinina hins vegar vel stingur þessi lýsing á aðferðarfræðinni mjög í augu:

"Við notumst við eina bók í senn, tökum sem dæmi Palli var einn í heiminum. Til að byrja með lesum við bókina fyrir börnin og ræðum svo um hana. Þannig tryggjum við að allir í bekknum skilji um hvað sagan fjallar áður en þeir fara að rembast við að lesa hana."

Lengi hafa margir og ég þeirra á meðal gagnrýnt skólakerfið fyrir að vera framleiðsla á slakri meðalmennsku, þar sem þeir sem framast standa þurfa að bíða eftir hópnum meðan verið er að reyna að halda meðaltalshópnum nokkurn veginn í horfinu. Með þessu á að taka skrefið til fulls, yfirferðarhraðinn á efninu mun sem sagt miðast við slakasta nemandann í hópnum, þeir sem geta farið hraðar yfir fá nú að eyða enn meiri tíma en áður í að hanga og bíða eftir restinni af hópnum.

Svo er fólk hissa á því að börnum leiðist í skólanum og eigi erfitt með að halda athygli við nám - svona fíflagangur er algjörlega gerður til að standa í vegi fyrir þeim.
Í dag smakkaði ég í fyrsta skipti og samtímis vonandi í síðasta skipti, hamborgara hjá Statoil.
Er ekki kominn tími til að hefja þetta til vegs og virðingar aftur? Þó ekki væri nema til að virka sem minnismiði seinna meir.

Ég tók mér frí í nýju vinnunni á föstudaginn og fór til Stokkhólms þar sem gömlu vinnuveitendurnir vildu endilega kveðja mig með stæl og það má segja að það hafi tekist. Við fórum út í hinn viðfræga skerjagarð við Stokkhólm þar sem heimsóttar voru tvær eyjur og þvælst á bátum, borðað með Zlatan Ibrahimovic, Olof Mellberg og fleirum úr sænska knattspyrnulandsliðinu (sem reyndar voru bara að borða á sama veitingastað og við fyrir tilviljun). Heimferðin úr Skerjagarðinum var nú samt hápunkturinn því við vorum sótt af tveimur bátum sem á sænsku kallast "ribbåtar", ég hef ekki hugmynd um hvað þeir heita (Ágúst, þú fyllir í gatið) og okkur var skutlað til Stokkhólms, alls ekki stystu og einföldustu leið, á 55-60 hnúta hraða með tilheyrandi stökkum og látum.

Þegar ég svo kom heim í Lund í gær náði ég varla að skipta um skoðun áður en ég lagði í hann til Odense til að mæta í útskriftarveislu hjá Úlfari sem stóð langt fram á nótt. Fín helgi með miklu flakki, góð upphitun fyrir heimsóknina hjá pabba á föstudaginn!