Þá er það klárt, ég flyt í Lund í desember. Verður talsvert styttra í vinnuna. Þriggja herbergja íbúð og lúxus eins og sameinað klósett og baðherbergi!
Google að kaupa Motorola Mobility, nú loksins kemst einkaleyfastríðið á fullt. Tæknimenn og lögfræðingar hjá Google eiga væntanlega eftir að lesa einkaleyfin 17.000 sem fást með MM og herja duglega á einkaleyfatröllið sem Apple er orðið. Ætli verði nokkuð búnir til fleiri "smartphones" næstu árin meðan allir eru á kafi í lagaflækjum og dómsmálum?
Jæja, nú er hlandið farið að kólna og ríkisstjórnir geta ekki pissað mikið meira í skóna. Var ekki kominn tími á seinni dýfuna í tvöfalda vaffinu?
Fannst ég tilneyddur til að skrifa þetta blogg bara til að benda á þessa útskýringu á verðtryggingunni og hvers vegna verðtryggingin sjálf er verðbólguhvetjandi og þar með "sjálfalandi".

Í greininni kemur líka fram hvers vegna íslenska krónan er ekki vandamál íslenska hagkerfins, þvert á móti er hagkerfið að pína krónuna niður í skítinn gegnum verðtrygginguna.
Eitt af því sem ég og fleiri andstæðingar kynjakvóta sem og annarrar sérmeðferðar höfum bent á lengi er að fyrr eða síðar myndi þetta leiða til þess að kæmu fram aðrir hagsmunahópar sem myndu heimta að þeir yrðu "kvótaðir" inn í hitt og þetta.

Stuðningsmenn kynjakvótanna urðu algjörlega æfir og kölluðu þetta "strámenn". Allt sem bendir á möguleg eftirköst heimskulegrar handstýringar og móralskrar elítuhegðunar fékk á tímabili sjálfvirkt þann dóm hjá þeim hópi, dómurinn er í dag sá sami þó orðið "strámenn" hafi dottið svolítið út, enda hefur svona orðum venjulega verið útjaskað ansi hratt þangað til þau hafa algjörlega tapað meiningunni.

Nú getum ég og fleiri hins vegar "fagnað sigri". Evrópusambandssinnar innan Sjálfstæðisflokksins hafa farið fram á að fá þriðja hvert sæti á framboðslistum flokksins.

Hvers vegna hræðast kvótasinnar lýðræðið svona? Er það vegna þess að almenningur er ekki sammála þessum sérhagsmunagæsluhópum og þá þarf að neyða það ofan í kok á þeim? Vinstri græn hafa verið slæm hvað varðar undanlátsseminni við lítinn hóp feminista og kvótasett konur inn á framboðslista því flokksfélögunum er ekki treyst til að "kjósa rétt". Nú hafa sem sagt Evrópusambandssinnar innan Sjálfstæðisflokksins skipað sér í flokk með vinstri grænum feministum að því leyti að vilja ekki leyfa eigin kjósendum að kjósa það sem þeir vilja.

Þetta er reyndar að verða nokkuð lýsandi fyrir hópa sem aðhyllast samþjöppun valds, Samfylkingin hefur ekki haft neitt annað raunverulegt stefnumál frá stofnun, fyrst sameining sveitarfélaga, svo fækkun kjördæma og nú síðast Evrópusambandsaðild. Vinstri Græn með sínar rætur í kommúnismanum og öfgahópum innan náttúruverndar hefur alltaf í eðli sínu staðið fyrir miðstýringu, að fámennur elítuhópur eigi að hugsa og taka ákvarðanir fyrir óupplýstan skrílinn því hann má ekki taka eigin ákvarðanir.

Miðstýringaröfl innan Sjálfstæðisflokksins ganga nú í þennan miður glæsilega hóp og krefjast sömu sérmeðhöndlunar og konur fá í stjórnmálum og hefur verið neytt inn á fyrirtæki í einkaeigu.

Þessir hópar eru stórhættulegir allri lýðræðishugsun, fyrst og fremst vegna þess að þeir eru beinlínis á móti lýðræði, ef lýðurinn kýs ekki "rétt" þá má bara breyta úrslitunum með handafli.