Hef verið á töluverðum þvælingi undanfarið, tvær Stokkhólmsferðir á einni viku og ein ferð hálfa leið þangað þess á milli.

Vinnuferð til Stokkhólms í alveg heilan dag, ferðalög fram og til baka teygðu þann vinnudag upp í 12 tíma. Síðan var eins dags "hvíld" og svo keyrt upp til Gränna (rétt norðan við Jönköping) til að taka þátt í "företagsdag" og síðan keyrt heim aftur seinna sama dag, þriggja og hálfs tíma akstur hvora leið eins og ekkert sé.

Svo mætti Árni "Leedsarinn" hingað til Malmö og við keyrðum norður til Stokkhólms til að sjá Yusof Islam, betur þekktan sem Cat Stevens, spila í íshokkíhöllinni Hovet sem stendur í skugga Globen. Kallinn var nokkuð sprækur og þó ég hafi nú ekki þekkt mikið af lögunum sem hann spilaði voru tónleikarnir fínir - gaman að geta merkt við "Cat Stevens" sem einn af þeim sem ég hef séð á tónleikum.

Síðan til Skövde til Arnars og Bergþóru þar sem við fengum allt of góðar móttökur, takk fyrir það enn og aftur! Ég sá nú ekki mikið af Skövde í þessari ferð en Árni sá þeim mun meira. Verð bara að renna þangað aftur fljótlega.

Í bakaleiðinni stoppuðum við í Helsingborg til að fá okkur að borða og kíkja á einn leik í Allsvenskan þar sem HIF vann Gefle nokkuð auðveldlega.
Það er hægt að segja að eitt virkilega jákvætt hafi komið út úr fjármálahruninu fræga, almenningur virðist vera farinn að lesa lög sem mannvitsbrekkurnar við Austurvöll senda frá sér á færibandi.

Því miður hefur slíku lítið farið fram á hinu "Nýja Íslandi", reyndar frekar farið töluvert aftur að ýmsu leyti. Gott dæmi um það eru fjölmiðlalögin sem fá skemmtilega en því miður raunsæja yfirhalningu á gyl.fi og Baggalutur.is.

Annað dæmi er breyting á upplýsingalögunum sem Einar Björn Bjarnason bendir á frekar hættulega viðbót við lögin.

Tilhneigingin virðist vera stöðugt meira í þá átt að lög séu ekki skýr og ákveðin heldur algjörlega háð geðþóttaákvörðunum ýmissa embættismanna. Það er áhugavert að sjá sífellt meira af svona lögum frá flokknum sem fyrir síðustu kosningar vildi "allt upp á borðið".

Ofan á þetta bætist svo sívaxandi skoðanainnræting og skömmtun með miðstýringartilhneigingum. Dæmi um slíkt má finna m.a. í 33. og 34. grein í fjölmiðlalögunum:

33. grein: "Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni í línulegri dagskrá skal kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarkaupa.
Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni í línulegri dagskrá skal kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu"

34. grein: "Fjölmiðlaveita sem miðlar myndefni í línulegri dagskrá skal, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 33. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum."

Þetta er ekkert annað en opinber ritstýring á sjónvarpi. Þarna er sjónvarpsstöðvum beinlínis fyrirskipað að sýna evrópskt sjónvarpsefni að ákveðnu lágmarki. Hvaða ástæðu hefur Alþingi til að hlutast til um hvar efnið sem sjónvarpsstöð sýnir er framleitt? Er evrópskt efni svona lélegt neytendur vilja ekki horfa á það? Er þá lausnin virkilega að neyða það ofan í neytendurna með lögum? Væri ekki nær að evrópskir framleiðendur færu hreinlega að framleiða efni sem fólk vill sjá? Eða þarf að hafa vit fyrir venjulegum neytanda hvað þetta varðar?

Eitt atriði enn er k-liður 23. greinarinnar:
"Fjölmiðlaveitu er skylt að senda fjölmiðlanefnd árlega skýrslu sem hefur að geyma upplýsingar um eftirfarandi atriði, eftir því sem við á:
k aðgerðir fjölmiðlaveitunnar til að vinna gegn staðalímyndum kynjanna".

Þarna er gengið út frá því að "fjölmiðlaveitan" (sem skv. ströngustu túlkun laganna getur verið einstaklingur sem bloggar) sé með einhverjar aðgerðir gegn staðalímyndun kynjanna, það að fjölmiðlaveitan geti haft þá skoðun að staðalímyndir kynjanna séu alls ekki neikvæðar eða séu jafnvel beinlínis jákvæðar er hreinlega ekki íhugað sem möguleiki - allir eiga að hafa sömu skoðun sem þeir sem setja lögin.

Þó eru tvær "undankomuleiðir". Í 26. greini laganna stendur: "Fjölmiðlaveitu sem hefur þá yfirlýstu stefnu að beita sér fyrir tilteknum málstað skal vera óskylt að miðla efni sem gengur í berhögg við stefnu miðilsins." Þetta krefst samt þess að til að mega hafa skoðanir sem ekki samræmast þeirri skoðun Alþingis að staðalímyndir séu af hinu illa verður viðkomandi fjölmiðlaveita að gera það að yfirlýstri stefnu sinni að vinna að styrkingu staðalímynda.

Hin undankomuleiðin er kannski öllu skemmtilegri og beittari. Árleg skýrsla um þennan k-lið gæti einfaldlega hljóðað svona:
"Fjölmiðlaveitan hefur ekki uppi neinar aðgerðir gegn staðalímyndun kynjanna þar sem fjölmiðlaveitan telur að slíkar aðgerðir séu óþarfar og vinni gegn skoðanafrelsi einstaklingsins og trúverðugleika fjölmiðilsins sem hlutlauss aðila."

Nú veit ég svo sem ekki hversu mikið af þessum fjölmiðlalögum er eldra en nýjasta útgáfan af þeim en það er ákaflega takmörkuð afsökun - skoðanainnræting og ritstýring af þessu tagi er algjörlega óásættanleg í landi sem vill telja sig sem lýðræðisríki með skoðanafrelsi.
Þetta er nú bara til að uppfæra bloggið, á morgun skrepp ég til Gautaborgar til að sjá Manowar spila í Trädgården. Löngu kominn tími til að sjá þá á tónleikum!
Meira að segja Redmond er sammála því að Internet Explorer 6 verður að deyja!

Ertu að nota Internet Explorer 6? Skamm! Hér eru talsvert betri valmöguleikar:

Opera
Firefox
Google Chrome
jörðina litla. Þetta er mynd frá NASA sem almennt er kölluð "Pale blue dot." Reynið að finna jörðina á myndinni!

Myndin er tekin af Voyager I úr 6,4 miljarða kílómetra fjarlægð frá jörðinni þann 14. febrúar 1990, þetta er síðasta myndin sem Voyager I tók af jörðinni.

Það var Carl Sagan sem átti hugmyndina að því að taka þessa mynd, eins konar "one last look home" áður en Voyager héldi áfram út úr sólkerfinu. Hann skrifaði áhugaverðan pistil um þessa einstöku mynd.