Þá er Paul allur, fórnarlamb eigin velgengni. Síðustu mánuðum ævi sinnar eyddi hann í ofneyslu ódýrra blekhylkja og stóðlífi þar sem allt að 8 grúppíur fundust í búrinu hjá honum kvöld eftir kvöld. Hann fannst vafinn í spænska fánann með nautabanapottlok á hausnum og hálfétna paellu í munninum.
Þá er kominn tími til að læra japönsku! Vinnufélagi minn var að setja upp smá japönsk quiz - um að gera að kíkja á þetta.
Fyrirsögn á vísi.is: "Merkur áfangi í sögu Dalvíkur", greinin segir frá því að ný íþróttamiðstöð verður tekin vígð og tekin í notkun á Dalvík í dag.

Fyrir utan að það er vissulega merkilegt að fólki finnist ennþá eðlilegt að fullorðinn karlmaður klæddur í kjól mæti á svæðið, skvetti smá vatni út í loftið og biðji ímyndaðan vin sinn að passa húsið, verður líka að teljast áhugavert að ósköp venjulegt íþróttahús þurfi að fá svona uppskrúfaðan titil eins og "íþróttamiðstöð".

Það minnir svolítið á skúringakonurnar sem nú heita víst ræstitæknar og kæmi ekki á óvart að sá eða sú sem fær það hlutverk í nýju íþróttamiðstöðinni fái titilinn "deildarstjóri ræstitæknisviðs" eins og Árni vinur minn kallaði það um daginn.

Það var vissulega tímabært að Dalvíkingar fengju íþróttahús í fullri stærð og það verður líklega að teljast merkur áfangi að það hafðist eftir ekki nema rúm 25 ár að koma því í verk en mig grunar að einhver pólitíkusinn eigi eftir að slá sig til riddara fyrir framtakið við athöfnina í dag og stæra sig af skorti á framsýni og framtakssemi fyrirrennara sinna.

Staðreyndin er að þessi uppbygging "íþróttamiðstöðvar" á Dalvík hefur verið sorglegt púsluspil þar sem ekki hefur verið hlustað á fólk sem benti á augljósa vankanta allra skrefa á leiðinni, vankanta sem hafa kostað töluverðar fjárupphæðir og neytt menn til að fara hæpnar málamiðlunarleiðir til að bjarga sér fyrir oft ansi hvöss horn.

Þrátt fyrir allt þetta ætla ég að óska Dalvíkingum til hamingju með að hafa loksins eignast alvöru íþróttahús - vona að það nýtist sem allra best.
Það er svo mikið til í þessu
Tók mig loksins til í gærkvöldi og horfði á "Dune" eftir að vera búinn að heyra það í 26 ár hversu góð sú mynd væri. Skemmst frá því að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum, það orð nær einfaldlega ekki að lýsa því hvernig mér leið yfir myndinni. Eftir bara 10 mínútur var ég farinn að athuga hvað mikið væri eftir af þessari samhengislausu málverkasýningu.

Tæknibrellurnar hefðu þótt frekar slappar í kringum 1960, "2001, A Space Odyssey" er gerð 1962, bara svona til að gefa viðmið. og handritið svo hörmulega óskýrt að nánast öll myndin er með þul sem þarf að útskýra hvað er að gerast og til að bæta gráu ofan á svart eru hugsanir hjá öllum karakterum döbbaðar yfir til að útskýra enn frekar hvað er að gerast. Tala um að taka bókina beint!

Ég las svo á IMDB að myndin hafi upphaflega átt að vera sex tímar en verið klippt niður svo grimmilega að hún hafi orðið svona slöpp. Hún var reyndar lengd sem sjónvarpsþættir í rúmlega þrjá tíma og manni sýnist á öllu að hún hafi versnað ef eitthvað er við það þannig að ég þakka bara fyrir að hafa ekki fengið alla myndina í einu!

Ég gef venjulega ekki einkunn en núll af fimm virkar eiginlega sem of mikið fyrir þetta "stórvirki".